Hvað er egó ?

15. nóvember 2022

Egóið eða é-góið er talið vera það sem býr til allar okkar neikvæðu tilfinningar.

Sumir kalla þetta skemmdavarginn eða púkann sem býr til niðurrifs röddina innra með okkur sem er neikvæð, dæmandi, heftandi, eyðileggjandi osfrv. Þessi rödd sem verður að hugsunum verður til þess að tilfinningar eins og öfund, afbrýðisemi, vanmáttur, skortur og allar aðrar neikvæðar tilfinningar. Hún fer líka með okkur í samanburp.

Egóið heldur okkur líka í hlutverki fórnarlambsins og heldur þar með aftur af okkur á svo margan hátt. Í raun má segja að okkar eigið egó haldi okkur í fjötrum frá okkar eigin hjarta, frá okkur sjálfum og okkar sál.

Almennt þegar fólk heyrir talað um egó tengir það egó-ið við eitthvað karlmannlegt eða þá sem líta stórt á sig eða eru verulega uppteknir af sjálfum sér. Sumir sem virðast hafa mikið sjálfstraust hafa kannski ekki raunverulegt sjálfstraust heldur stórt egó. Slíkt sjálfstraust er byggt á blekkingum þar sem hroki og yfirlæti fylgir yfirleitt egóinu. Hroki er í raun ein birtingarmynd þess að vera í vörn. Egóið elur með sér vanmáttarkennd sem oftast er falin með hroka.

Egóið er lærð hegðun og mótar okkur í raun alveg frá okkar barnæsku og mun hafa tangarhald á okkur þar til við áttum okkur og vöknum af svefni egósins og færumst nær hjartanu. Við lærum t.d. það að við eigum að reiðast þeim sem brýtur á okkur, nefnd réttlát reiði. Okkur er kennt ef við fyrirgefum þeim sem braut á okkur, þá séum við í raun að gefa eftir og ekki standa með okkur. Sem er í raun algjör andstæða þess að standa með sér. Það að geta farið í hjartað og fyrirgefið og látið atvikið sem um ræðir ekki stjórna því hvernig okkur líður – er í rauninni það að taka valdið til okkar og ekki láta aðra stjórna því hvernig okkur líður. Þannig getum við staðið með okkur á fallegan hátt sem styrkir og eflir okkur á svo margan hátt.

Egóið býr innra með okkur öllum og það fylgir okkur þar til við náum að hlusta betur á hjarta okkar og tengjast innsæi okkar, þannig komumst við nær sálinni okkar.

Þegar við vöknum og förum að tengjumst hjarta okkar - þá fyrst náum við að hrista af okkur þá fjötra sem egóið hefur á okkur.

Eins og segir hér að ofan þá á vanlíðan okkar langoftast upptök sín út frá egóinu okkar, því egóið fær okkur til að fara í samanburð, dregur úr okkur, skammast í okkur og við hugsum neikvætt til okkar - í stað þess að hvetja okkur áfram, hlúa að okkur, sýna okkur stuðning, hlýju, kærleika og umburðalyndi - vera til staðar fyrir okkur sjálf, þannig stuðlum við að okkar eigin sjálfsvirðingu og sjálfsvitund.

Þannig elskum við okkur eins og við erum, lifum í sátt við okkur sjálf. 

Jákvæðar staðfhæfingar eða möntrur hjálpa okkur í þessari vinnu og þessar möntrur er gott að nota þegar við eigum erfitt og upplifum neikvæðar tilfinningar.

„Ég elska mig þrátt fyrir að….(ég finni fyrir kvíða / upplifi vanmátt) „
&
„Ég elska mig alltaf, alla daga og alveg sama hvað“
 
Þessar möntrur er gott að fara með eins oft og hægt er daglega og helst upphátt.

Sönn sjálfsvirðing næst ekki í gegn með egóinu. Sjálfsþekking og sönn sjálfsvirðing eyðir egóinu. Því ættum við öll að hvetja okkur sjálf til að velja og venja okkur á hugsanir sem stuðla að sjálfsvirðingu, sem verða til með því að hugsa út frá hjartanu.

Egóið hefur líka verið nefnt skortdýrið, já skort dýrið – sem er þetta ósanna í okkur sem elur með okkur hræðslu, ótta og kvíða. Eins og nafnið gefur til ykkar elur það á skort tilfinningu okkar, að við séum ekki nóg og eigum aldrei nóg.

Þegar við leyfum okkur að finna og hlusta eftir því sem hjartað segir okkur, þá færumst við alltaf örlítið fjær egóinu/skortdýrinu og nær hjartanu.

Egóið er í rauninni þær hugmyndir sem þú hefur um þig sjálfa/n þegar þú ert ekki tengd/ur þínu innsæi og hjarta. Egóið býr til þær hugmyndir sem þú hefur um þína eigin getu eða vanmátt og stjórnast út frá þínum hugsunum, þess vegna verður þú þínar hugsanir þegar þú lifir út frá egóinu. Sem í raun flestir gera í stað þess að vera og lifa út frá hjartanu. Hjartað leiðir okkur alltaf á réttan stað. Þegar þú hlustar á þitt innsæi, þá ertu í raun að hlusta á þitt hjarta.

Innsæið er tær vitund og er stöðugt samtal sálarinnar við umheiminn og þig, það talar alltaf út frá hjartanu en aldrei á forsendum egósins.

Innsæi er opið flæði og þegar þú nærð að fylgja því, þá muntu bera þann eiginleika að sjá allt eins og það er, án dóms og viðnáms. Að vera tengd/ur þínu innsæi, þá ertu stöðugt vakandi – þiggur ekki ein og ein skilaboð heldur ert í stanslausri tengingu við það.

Það að lifa eftir þínu eigin hjarta er í rauninni það líf sem þér er ætlað að lifa. Hjartað þitt þekkir t.d. bara ást, kærleika, þakklæti og samkennd. Þegar þú ferð að lifa þínu lífi út frá þínu hjarta þá ferðu í raun að „vakna“ og smá saman „vaknar“ þú meira og meira til lífsins.

Þegar ég segi þetta, þá á ég við að þú ferð að átta þig betur og betur á því hversu dásamlegt þetta líf er, þrátt fyrir það sem verður á þínum vegi. Því þú ferð að sjá allt það sem þú gerir, sem gæfu og ekki síst þær gjörðir sem flestir myndu flokka sem mistök.

Þú hættir að dæma þig og sparka í sjálfa/n þig liggjandi, því þú ferð að sjá að þú gerir aldrei mistök eða ruglast. Heldur ferð að horfa á þá atburði með öðru hugarfari og ferð að þakka fyrir allt það sem þú hefur í þínu lífi, jafnvel það sem telst vera slæmt í þínu lífi líka. Þú ferð að horfa á alla hluti og atburði sem tækifæri til að læra og þroskast.

Kærleikur & hlýja

Sólveig Ösp

Viltu skilja eftir skilaboð við þessa grein?

Takk fyrir. Skilaboð þín munu verða yfirfarin.